19.2.2022 | 10:57
Tilgáta um brjálsemi þjóðarleiðtoga
Þjóðarleiðtogar eru oft miklir egóistar og eru í stöðugri keppni um að vera fremstir. það er þessi keppni um að vera fremstir sem veldur brjálsemi þeirra - það kemst ekkert annað að. Sumir þeirra vita ekki afhverju þeir vilja vera þjóðarleiðtogar, þeir vita það eitt að þeir vilja vera fremstir.
Þjóðarleiðtogar eiga það til að fangelsa eða ryðja úr vegi stjórnarandstæðingum og þeim sem gætu átt til að gagnrýna þá, dómurum og blaðamönnum og stundum fara þeir í stríð. Ástæðan fyrir þessu gæti verið að þeir eru að verja þá hugmynd um sjálfa sig, um að vera fremstir og til að þessi sjálfsmynd bíði ekki hnekki, gera þeir hvað sem er. Þeir eru í raun hræddir menn að verja hugmyndina um sjálfa sig sem mikilmenni og númer eitt og ryðja þeim úr vegi sem gætu raskað þeirri hugmynd.
Rótin að þessu ástandi gæti verið lífsskoðun eins og sú, að láta engan vaða yfir sig. Í slíku lífsviðhorfi felst átök, jafnvel átakasækni (til að sanna sig) og ákveðin mikilmennskukennd, því ef enginn getur vaðið yfir viðkomandi þá hlýtur hann að vera númer eitt?
Mótefnið við þessu kann að vera "jafnaðarmennska", tilfinningaleg meðvitund, kærleikur, átakafælni og muna að fæstir eru fullkomnir?
12.10.2021 | 11:40
Yfirismi
Ég er mikill maður
já talsvert meiri en þið
Að minnsta kosti meiri
en margir ónefndir
Ég dýrka sjálfsdýrkandann
og dreymi um efsta stall
Ég er með glás af gráðum
er ekkert drullumall
Heilbrigður og hávaxinn
með hár á bringunni
Klæddur eins og kóngur
í merkjavörunni
Við erum mesta þjóðin
sigurvegarar
ekki minnipokamenn
eða aumingjar
Ríkisvaldið sterkt
og hlýðnir þegnarnir
Ef það gengur ekki
tala peningarnir
Þingið það er þref
og dómararnir skræfur
Okkur farnast best
ef sá sterki ræður
Ef að ég slasast
ég greiði sanngjarnt gjald
Ef þú ert blankur
á götunnar vald!
Ég vill enga flóttamenn
útum koppa og grundir
Það sem að ég óttast mest
er að verða undir
Ég á mér mín takmörk
ég er ekki hinn fyrsti
Ég aðeins skríð
fyrir Kristi
Hiklaust ég sendi
hina á bálið
Eins og góður Guð
það er málið
Sem vinnuveitandi
ég vel mína þræla
Það er eins gott þeir séu
ekki með stæla
Þú borgari góður
skalt þekkja þinn stað
annars það hefur
afleiðingar
Ef einhver mér ógnar
þá valdi ég beiti
Annars verður allt
eitt öngþveiti
Ef ég ei næ að ráða
hann ei vill upp rísa
jafnvel þó þú sért
rosaleg skvísa
Eins víst og Jesús
oss sækir senn
þá er náttúran
fyrir menn
Ef ég ei þarf
eftir matnum að bíða
þá mega dýrin
kvalir líða
Ég á mér ei takmörk
ég er bara svona
En mundu það vinan
þú ert bara kona
Sem mikill maður
ég fæ meira en þið
Þó ekki meira en
nokkrum núllum aftanvið
Ég hef þykkan vegg
og finn ekki til
Tilfinningarnar ekki
ég kannast við
Allir hlutir lýsa frá sér ljósi sem fer eftir hitastigi þeirra (thermal radiation). Þá er ekki verið að tala um það sýnilega ljós, sem berst frá hlutunum þegar fellur á þá sólarljós eða eitthvað slíkt, heldur ljós sem fer eftir hitastigi þeirra. Því heitari sem hluturinn er, því orkuríkara er ljósið. Hjá venjulegum hlutum er þetta ljós ósýnilegt, (er t.d. á innrauða sviðinu), en ef hluturinn er hitaður meira fer hann að lýsa á sýnilega sviðinu (eins og t.d. rauðglóandi heitt járn).
Sólin hitar yfirborð jarðarinnar og jörðin geislar frá sér ósýnilegu ljósi sem fer eftir hitastigi hennar á hverjum stað. Í andrúmsloftinu eru svo lofttegundir, m.a. gróðurhúsalofttegundir sem gleypa hluta þessa ljóss og þá fara sameindirnar að snúast hraðar og titra meira og við það hitnar. Þetta er ekki alls ólíkt því sem gerist í örbylgjuofni. Örbylgjuofninn sendir frá sér ósýnilegt ljós, sem ofninn framleiðir með ákveðnum hætti og maturinn í honum gleypir þetta ljós og við það fara sameindirnar í matnum að snúast hraðar og við það hitnar hann.
Þegar jörðin geislar frá sér sínu ósýnilega ljósi, þá færi hluti af því bara út í geim, en þegar er aukið við gróðurhúsalofttegundir verður stærri hluti varmans eftir í lofthjúpnum og hluti geislast aftur til jarðarinnar.
Vandamálið er einkum jarðefnaeldsneyti, olía, gas og kol. Þegar það er brennt myndast gróðurhúsalofttegundin koltvísýringur. Einhver kann þá að spyrja, hvort maðurinn hafi ekki alltaf verið að brenna eldivið og framleiða með því koltvísýring. Jú það er rétt, en það sem gerðist þá, var að plöntur tóku upp koltvísýringinn, sem varð til við brunann, auk vatns og sólarljóss og framleiddu úr því súrefni og kolvetni, í ferli sem heitir ljóstillífun, þ.a. þetta var hringrás þar sem sá koltvísýringur sem myndaðist við brunann á eldiviðnum, var upptekinn af öðrum plöntum og magn koltvísýrings hélst nokkuð stöðugt í andrúmsloftinu. Þegar jarðefnaeldsneyti er brennt aftur á móti, þá bætist við magn kolefnis í kolefnishringrásinni og koltvísýrings í andrúmsloftinu, sem veldur auknum gróðurhúsaáhrifum, þar sem stærri hluti varmans sem jörðin geislar frá sér verður eftir í lofthjúpnum og hluti geislast aftur til jarðarinnar. Þess ber að geta að hluti viðbætts koltvísýrings fer í höfin og veldur súrnun sjávar.
Án gróðurhúsaáhrifa væri ekki byggilegt á jörðinni, það væri einfaldlega of kalt, en aukning gróðurhúsalofttegunda gæti verið að valda örri hlýnun.
Höfundur var efnafræðingur í gamla daga.
Vísindi og fræði | Breytt 27.9.2021 kl. 09:47 | Slóð | Facebook
11.9.2021 | 13:22
Líkindi með guðstrú og djöflatrú
Ýmis líkindi má finna með himnafeðgum Biblíunnar og þeim hugmyndum sem fólk hefur um djöfla. Guðinn er til að mynda raðmorðingi og sonur hans hótar að senda þá, sem hann segir illt fremja, lifandi í eldinn, þar sem verður "grátur og gnístran tanna".
Kristnir menn hafa oft á tíðum hagað sér eins og Satanistar. Til að mynda brenndu þeir fólk lifandi á báli og drekktu konum sem frömdu þá synd að eignast börn utan hjónabands (sem er líka sérstakt, í ljósi þess, að guðinn og María voru ekki gift þegar þau eignuðust Jesú), auk þessa framkvæmdu þeir pyntingar á fólki í spænska rannsóknarréttinum.
Kirkjan hefur líka oft verið höll undir efnishyggju og hefur verið mikil peninga og valdastofnun. Það er frægt að hún veitti meðlimum sínum syndaaflausn gegn greiðslu.
Kristin ríki hafa einnig hagað sér á djöfullegan hátt, en stundum hefur mátt líkja háttalagi þeirra við dæmi í Biblíunni. Nasistar sendu óvini sína í eldinn, en Jesúsinn hótar að senda þá, sem hann segir illt fremja, í eldinn. Bandaríkjamenn vörpuðu kjarnorkusprengjum á Japan, en guðinn lét rigna eldi og brennisteini yfir borgirnar Sódómu og Gómorru og gjöreyddi þeim og íbúum þeirra.
Annað sem minnir á Satanisma eru dýrafórnir sem Ísraelsmenn framkvæmdu og svo er líka dálítið óhuggulegt þegar kristnir menn ganga til altaris og táknrænt, drekka blóð og borða líkama Krists.
Þess má geta að Satan Biblíunnar virkar nú frekar saklaus miðað við himnafeðgana a.m.k. þá man ég ekki eftir að hann drepi neinn. Hann segir að vísu við Jesú-inn eitthvað á þessa leið:. Allt þetta mun ég gefa þér, ef þú fellur fram og tilbiður mig, en það má velta fyrir sér hvort Jesús-inn geri ekki það sama, þ.e. ef þú fellur fram og tilbiður mig, mun þér e.t.v. veitast eilíft líf - eða er það ekki annars, einn boðskapur Biblíunnar?
Biblían er mótsagnakennd bók. Í henni er bæði að finna kærleiksboðskap og svo þessi dæmi og fleiri, sem ég hef nefnt hér að ofan. Það er t.d. ákveðin mótsögn í því að guðinn segir, í boðorðunum tíu: Þú skalt ekki mann deyða, en svo gjörir hann sjálfur hið gagnstæða. Þó má e.t.v. draga einhvern jákvæðan lærdóm af Biblíunni, þar er sem fyrr segir kærleiksboðskapur, en ég tel að hann sé notaður til að afla trúarbrögðunum fylgis, ekki alls ólíkt og stjórnmálamaður segir eitthvað sem margir geta verið sammála um, til að afla sér fylgis.
Trúmál og siðferði | Breytt 27.7.2023 kl. 10:28 | Slóð | Facebook
4.9.2021 | 10:49
Hvernig freki karlinn verður til (tilgáta):
Einu sinni var lítill drengur sem var lítill í hjartanu og smár. Freku karlarnir í kringum hann (með stór egó) mættu honum með yfirlæti og hroka sem lét honum líða eins og hann væri minni.
Svo fór fór litli maðurinn í skóla og sankaði að sér háskólagráðum og svo metorðum og naut veraldlegar velgengni sem steig honum mjög til höfuðs. Ennfremur til að bregðast við minnimáttarkenndinni sem var að hluta til komin vegna yfirlætis annarra tók hann sjálfur að líta á sig stórmenni (og þar með stærri en einhverjir ónefndir) og varð sjálfur hinn mesti egóisti og ofurmenni. Þannig mætti kannski segja að yfirlæti og egóismi í einum geti ýtt undir yfirlæti og egóisma í öðrum.
Og metorðin fóðruðu stórmennskukenndina og lífið varð einn slagur í að vinna slagi við aðra, hafa betur og stefna "hærra" sem steig honum ennþá meira til höfuðs. Í öllum asanum og slagsmálunum varð hann að tilfinningalausu vélmenni sem stýrðist nær eingöngu á eigin rökhugsun og kennisetningunni að láta ENGANN vaða yfir sig en varð í þessu ferli nær tifinningalaus og var óviss um hvað orðið tilfinningar þýddi í raun og veru.
Svo þegar hann var orðinn bæði forseti og forsætisráðherra þá hóf hann að fangelsa blaðamenn sem áttu til að gagnrýna hann og reka dómara sem voru honum ekki hliðhollir. Að lokum fór hann svo í stríð af því að það skildi ENGINN vaða yfir hann.
Kannski er best að líta á sig sem hvorki óæðri eða æðri en aðrir?
22.4.2021 | 16:10
Ríkiskaffihús - því ekki?
Ég er með hugmynd: Hvernig væri að ríkið gerði sig gildandi á samkeppnismarkaði? Hvernig væri t.d. ef ríkið ætti varanlega einn banka í heilu lagi, tryggingafélag, sjávarútvegsfyrirtæki o.s.frv., já og jafnvel ríkiskaffihús.
Ef ríkið getur grætt á fyrirtækjarekstri í samkeppni við einkaaðila af hverju er það þá ekki að gera það til hagsbóta fyrir almenning. Ég vil gjarnan geta valið hvort ég versla við einkabanka (og eina prósentið) eða ríkisbanka (við almenning).
Þarna yrði þá bæði kapítalismi og sameignarstefna í bland, þar sem maður gæti valið annað hvort eða bæði eftir atvikum.
Ég vil benda á að sameignarstefna hefur gefist vel á mörgum sviðum, t.d. er Landsvirkjun í almanna eigu og er almenn ánægja með það. Ríkisbankarnir hafa undanfarin misseri skilað svakalegum hagnaði og arði til ríkisins, og í gamla daga átti ríkið t.d. Símann (Póstur og Sími) sem var á þeim tíma mikil tekjulind fyrir ríkið. Sé litið út fyrir landsteinana til Svíþjóðar, þar skilst mér að stór hluti íbúða sé í eigu ríkis og sveitafélaga og eru leigðar til almennings e.t.v. væri hægt að bjóða upp á lægri leigu með því móti?
Nú veit ég ekki hversu góð hugmynd þetta er á skalanum slæm til góð, en ég vildi koma henni á framfæri sem er hér með gert.
Hagur sjávarútvegsins, eigið fé og arðgreiðslur, frá hruni til loka ársins 2016 hefur batnað um 365 milljarða króna las ég nýlega í Kjarnanum, sem er ríflega milljón á hvern Íslending svo það virðist eftir nógu að slægjast.