Færsluflokkur: Bækur

Líkindi með guðstrú og djöflatrú

Ýmis líkindi má finna með himnafeðgum Biblíunnar og þeim hugmyndum sem fólk hefur um djöfla. Guðinn er til að mynda raðmorðingi og sonur hans hótar að senda þá, sem hann segir illt fremja, lifandi í eldinn, þar sem verður "grátur og gnístran tanna".

Kristnir menn hafa oft á tíðum hagað sér eins og Satanistar. Til að mynda brenndu þeir fólk lifandi á báli og drekktu konum sem frömdu þá synd að eignast börn utan hjónabands (sem er líka sérstakt, í ljósi þess, að guðinn og María voru ekki gift þegar þau eignuðust Jesú), auk þessa framkvæmdu þeir pyntingar á fólki í spænska rannsóknarréttinum.

Kirkjan hefur líka oft verið höll undir efnishyggju og hefur verið mikil peninga og valdastofnun. Það er frægt að hún veitti meðlimum sínum syndaaflausn gegn greiðslu.

Kristin ríki hafa einnig hagað sér á djöfullegan hátt, en stundum hefur mátt líkja háttalagi þeirra við dæmi í Biblíunni. Nasistar sendu óvini sína í eldinn, en Jesúsinn hótar að senda þá, sem hann segir illt fremja, í eldinn. Bandaríkjamenn vörpuðu kjarnorkusprengjum á Japan, en guðinn lét rigna eldi og brennisteini yfir borgirnar Sódómu og Gómorru og gjöreyddi þeim og íbúum þeirra.

Annað sem minnir á Satanisma eru dýrafórnir sem Ísraelsmenn framkvæmdu og svo er líka dálítið óhuggulegt þegar kristnir menn ganga til altaris og táknrænt, drekka blóð og borða líkama Krists.

Þess má geta að Satan Biblíunnar virkar nú frekar saklaus miðað við himnafeðgana a.m.k. þá man ég ekki eftir að hann drepi neinn. Hann segir að vísu við Jesú-inn eitthvað á þessa leið:. Allt þetta mun ég gefa þér, ef þú fellur fram og tilbiður mig, en það má velta fyrir sér hvort Jesús-inn geri ekki það sama, þ.e. ef þú fellur fram og tilbiður mig, mun þér e.t.v. veitast eilíft líf - eða er það ekki annars, einn boðskapur Biblíunnar?

Biblían er mótsagnakennd bók. Í henni er bæði að finna kærleiksboðskap og svo þessi dæmi og fleiri, sem ég hef nefnt hér að ofan. Það er t.d. ákveðin mótsögn í því að guðinn segir, í boðorðunum tíu: Þú skalt ekki mann deyða, en svo gjörir hann sjálfur hið gagnstæða. Þó má e.t.v. draga einhvern jákvæðan lærdóm af Biblíunni, þar er sem fyrr segir kærleiksboðskapur, en ég tel að hann sé notaður til að afla trúarbrögðunum fylgis, ekki alls ólíkt og stjórnmálamaður segir eitthvað sem margir geta verið sammála um, til að afla sér fylgis.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband